Gleðilega hrekkjavöku!

Rófan sem Birna Viðarsdóttir, skar svo listavel út. Ljósmynd/Birna Viðarsdóttir

Hrekkjavakan er haldin hátíðleg víðsvegar um landið þessa dagana og er Suðurlandið þar engin undantekning.

Á mánudaginn hófst til að mynda Skammdegishátíðin Þollóween í Þorlákshöfn. Er það í fyrsta sinn sem sú hátíð er haldin. Í kvöld munu svo börn ganga í hús í Hveragerði og á Selfossi.

„Fyrirkomulagið er það sama og í fyrra, fólk setur kerti út og þá vita krakkarnir að þar er óhætt að banka án þess að ónáða,“ segir Elísa Björk Jónsdóttir, sem sér um að skipuleggja hrekkjavökuna á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Elísa segir að það sé um 25-30% aukning á þáttöku síðan í fyrra. „Einhverjir eru að detta út vegna veikinda eða utanlandsferða og nýir að koma inn,“ segir Elísa.

Að sögn Elísu í stemmningin góð í bænum fyrir hrekkjavökunni. „Eins og fram hefur komið á einhverjum fréttamiðlum eru grasker víða uppseld. Fólk grípur í gömlu hefðina og sker út rófur sem mér persónulega finnst alveg frábær hugmynd! Ég hef líka séð fólk vera að skera út vatnsmelónur sem er einnig góð redding,“ segir Elísa.

Hrekkjótt rófa
Birna Viðarsdóttir, gulrófnabóndi á Norður-Hvoli í Mýrdal, ákvað að skera út rófu með sama hætti og fólk hefur verið að skera út grasker.

„Ég var bara að finna til rófur í sendingu og datt þetta þá allt í einu í hug. Ég hef verið í mesta lagi 5 mínútur að skera út rófuna, var heldur ekkert að vanda mig, bara að djóka. Þegar ég fór svo inn í kaffitímanum tók ég með mér kerti tilbaka og smellti af mynd,“ segir Birna en myndin hennar af rófunni, „Hrekkjótt rófa,“ hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum.

Þess má geta að hrekkjavakan kemur upphaflega frá Írlandi. Þar tíðkaðist að skera út rófur og næpur. Þegar hátíðin flyst svo með Írum til Ameríku tóku graskerin við af rótargrænmetinu enda mun þægilegra að skera þau út.

Sunnlenska.is hvetur börn og aðra sem verða á ferðinni í kvöld til að fara varlega í myrkrinu. Endurskinsmerki aftan á búningi getur gert gæfumuninn og aukið öryggi barnanna í umferðinni margfalt. Einnig hvetjum við ökumenn til að sýna ungum vegfarendum tillitssemi.

Fyrri greinSjötta tap Selfyssinga
Næsta greinEinbýlishús á Selfossi alelda