Gleðilegt sumar!

Sumar og vetur frusu saman en víða á Suðurlandi var örlítið frost í nótt. Íslensk þjóðtrú segir það góðs viti og að heyfengur verði góður í sumar.

Klukkan 1 í nótt var -2,3 °C í Árnesi í Gnúpverjahreppi, -0,2°C á Lyngdalsheiði og klukkan 2 í nótt var -1,1°C á Kálfhóli á Skeiðum.

Í bókinni Sögu daganna segir Árni Björnsson að hvarvetna hafi verið fylgst með því hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur.

Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Frá því mælingar sunnlenska.is hófust hafa sumar og vetur frosið saman á hverju ári frá 2011 til 2016 að árinu 2014 undanskildu. Árið 2014 varð sumarið óvenju hlýtt en um leið mjög úrkomusamt, langt umfram meðallag.

Sunnlenska.is óskar lesendum sínum gleðilegs sumars.

Fyrri greinRangárþing eystra og ytra fá ljósleiðarastyrk
Næsta greinHinrik sýnir í Listagjánni