Gleðjast yfir launahækkun bæjarfulltrúa

Forstöðumenn innan sveitarfélagsins Ölfuss sendu bæjarstjórn bréf þar sem lýst er ánægju með yfir 20% launahækkun bæjarfulltrúa Ölfuss frá síðustu áramótum.

Í bréfinu er þess jafnframt óskað að sú launaskerðing sem samþykkt var til forstöðumannanna við gerð fjárhagsáætlunar 2011 verði leiðrétt á árinu 2012 í ljósi ákvörðunar um hækkun launa bæjarstjórnar. Rökstuðningur fyrir beiðninni er sögð vera launahækkun bæjarfulltrúanna og greinilegt sé að bæjarfulltrúum hafi gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir að laga skuldastöðu sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn samþykkti bókun á fundinum þar sem hún áréttar að ekki sé um að ræða 20% launaleiðréttingu til handa bæjarfulltrúum og nefndarfólki þar sem laun þessa starfsfólks sveitarfélagsins hafa verið fryst frá því í árslok 2008. Þessi frysting hafi ekki tekið til neinna annarra starfsmanna sveitarfélagsins. Laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna hafa frá árinu 2002 tekið mið af launavísitölu og byggir sú launaleiðrétting sem bæjarráð tók ákvörðun um á síðasta fundi sínum á þróun launavísitölu frá 2008.

Í heildina fyrir árið 2012 er um að ræða 2.5 millj. kr. launaleiðréttingu gagnvart þessum hópi sem tekur gildi 1. janúar nk. en verður ekki afturvirk.

Bæjarstjórn samþykkti bókun vegna þessa með sex atkvæðum en Hróðmar Bjarnason sat hjá. Bæjarstjóra var falið að svara erindi forstöðumannanna.