Gleðilegt sumar!

Það er líf og fjör í hesthúsahverfinu á Eyrarbakka þessa dagana. Þar eru m.a. hestar, kindur, hænur, kanínur og kiðlingar á vappi.

Sunnlenska.is kom við í hesthúsahverfinu í gær til að mynda lamb sem kom þar í heiminn á annan í páskum. Það gaf þó ekki færi á sér enda vel verndað af móður sinni. Þess í stað sýndi Ólöf Helga Haraldsdóttir okkur fimm kiðlinga sem komu í heiminn í lok mars.

Ólöf hefur í mörg horn að líta en fjölskyldan heldur kindur, geitur og hænur í hesthúsahverfinu á Bakkanum.

Sunnlenska.is óskar lesendum sínum gleðilegs sumars og þakkar frábærar móttökur frá því vefurinn var opnaður þann 8. apríl sl.