Bílaþvottastöðinni Glans á Selfossi hefur verið lokað tímabundið vegna lélegra þvottagæða. Í tilkynningu frá stöðinni segir að vonast sé til þess að vandamálið leysist sem fyrst.
Stöðin var opnuð um miðjan júlí og fljótlega fór að bera á mikilli óánægju viðskiptavina, sem tjáðu sig margir hverjir fjálglega á íbúasíðu Selfyssinga á Facebook.
Í september brá Glans á það ráð að bjóða upp á frían þvott á meðan verið væri að greina vandamálið. Fyrr í þessari viku tilkynnti Glans svo að gæðin hefðu stóraukist, enda hefðu tæknimenn fínstillt þvottavélarnar og erlendir sérfræðingar verið kallaðir til.
Nokkrum dögum seinna fóru aftur að birtast myndir og háværar óánægjuraddir á íbúasíðunni og í dag tilkynnti Glans að stöðinni væri lokað þar til vandamálið hefur verið leyst.

