Gladdi marga þegar löggubíllinn festist

Síðastliðinn laugardag fór lögreglan á Hvolsvelli ásamt björgunarsveitarmönnum í eftirlitsferð á Emstrur, Hattfell og að Bláfjallakvísl.

Með í ferð voru björgunarsveitarmenn frá Dagrenningu á Hvolsvelli, úr Landeyjunum og Bróðurhöndinni undir Eyjafjöllum.

Mjög erfitt færi var en lögreglubifreiðinni reyndist mjög vel á 38″ dekkjum. Í eitt skiptið sat hann þó fastur og var það til að gleðja marga, að því er segir á Facebooksíðu lögreglunnar á Hvolsvelli og voru skiptar skoðanir um það hvort það skrifaðist á bílinn eða ökumanninn.

Lögreglubíllinn er mjög vel búinn til aksturs á hálendinu og á hann eftir að sjást oftar þar á komandi mánuðum.