Glæsivagnar á rúntinum á Selfossi – Bein útsending

Landsmót Fornbílaklúbbs Íslands var sett á Selfossi í kvöld í tólfta sinn. Mótið hófst með hóprúnti um götur Selfoss.

Mikill áhugi hefur verið fyrir mótinu á Selfossi undanfarin ár. Að öllu óbreyttu verður mótið ekki minna en í fyrra en þá mættu rúmlega 230 bílar og mikill gestafjöldi var á svæðinu.

Um 130 bílar tóku þátt í hóprúntinum í kvöld en honum lauk á tjaldsvæðinu við Gesthús þar sem mótið var sett formlega.

Á morgun verður stórglæsileg fornbílasýning á svæðinu, markaður, vöfflusala, hoppukastalar og vagnalest fyrir börnin. Mótinu verður síðan slitið síðdegis á sunnudag.

Frítt er inn á svæðið um helgina og allir velkomnir hvort sem er til að skoða, eða með bíla til sýnis.

Bein útsending er frá mótssvæðinu á Youtube-rás tæknideildar Árvirkjans og er hægt að fylgjast með henni í spilaranum hér að neðan.

Fyrri greinValgeir með tónleika á Sólheimum
Næsta greinSláttur hafinn á Suðurlandi