Glæsileg upplestrarkeppni í Mýrdalnum

Síðastliðinn fimmtudag fór fram lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fyrir grunnskólana í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auk Vestmannaeyja. Víkurskóli var gestgjafi að þessu sinni og var hátíðin haldin á Hótel Kötlu að Höfðabrekku í Mýrdal.

Skólarnir sem þátt tóku auk Víkurskóla voru Grunnskólinn á Hellu, Hvolsskóli, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli og Grunnskóli Vestmannaeyja.

Keppendurnir þrettán stóðu sig með mikilli prýði og greinilegt er að vel hefur verið unnið að þjálfun í skólunum í vetur.

Eins og oft áður var dómnefndinni vandi á höndum að gera upp á milli allra þessara góðu lesara, en á endanum stóð Herborg Sindradóttir, Grunnskóla Vestmannaeyja, uppi sem sigurvegari, í 2. sæti varð Karl Anders Þórólfur Karlsson, Víkurskóla og í 3. sæti Jón Grétar Jónasson, Grunnskóla Vestmannaeyja.

Staðarhaldarar á Hótel Kötlu tóku vel á móti keppendum og fararstjórum og buðu þeim upp á ljúffenga súpu við komu á staðinn. Nemendur Tónlistarskóla Mýrdalshrepps sáu um tónlistaratriði og í hléi voru bornar fram glæsilegar kaffiveitingar.
Veðrið var keppninni hliðholt og fært í Landeyjahöfn svo hópurinn frá Vestmannaeyjum komst fram og til baka samdægurs, en ferðalagið til okkar á Stóru upplestrarkeppnina hefur stundum tekið Eyjakrakkana allt upp í þrjá daga.
Fyrri greinHrafnhildur Inga sýnir í Gallerí Fold
Næsta greinSjaldgæfir frændur saman á mynd