Glæsileg afmælishátíð á Sólheimum

Það verður mikið um dýrðir á Sólheimum í Grímsnesi um helgina þegar haldið verður upp á 80 ára afmæli staðarins.

Síðdegis í dag söfnuðust gestir saman við Sesseljuhús og gengu síðan að nýjasta húsinu á staðnum, Tómasarsmiðju. Fánaberarnir Reynir Pétur og Gústi fóru fyrir skrúðgöngunni ásamt félögum úr lúðrasveitinni Svan.

Tómasarsmiðja var síðan opnuð formlega að undangenginni húsblessun sr. Birgis Thomsen. Húsið er rúmir 400 fm og mun þjóna hlutverki áhaldahúss og slökkvistöðvar. Smiðjan er nefnd eftir Tómasi Grétari Ólasyni, heimilisvini Sólheima, og klippti hann á borða við opnun smiðjunnar.

Stöðug uppbygging hefur verið á Sólheimum síðustu áratugi og hefð er fyrir því að þegar nýbyggingar eru vígðar þá er sömuleiðis tekin skóflustunga að nýju húsi. Það var gert við garðyrkjustöðina Sunnu þar sem Gísli Hendriksson tók fyrstu skóflustunguna að nýju gróðurhúsi.

Kór Áskirkju heldur tónleika í Sólheimakirkju kl. 14 á laugardag en afmælisveislan heldur áfram á sunnudag með hátíðarguðsþjónustu í Sólheimakirkju kl. 14. Þar verður m.a. vígð ný altaristafla, Davíð Ólafsson og Garðar Thor Cortes munu syngja tvísöng og Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, flytur ræðu.

Kl. 16 á sunnudag veður síðan heimildarmyndin „Sesselja… að fylgja ljósinu“ frumsýnd í Sesseljuhúsi. Myndin er gerð eftir handriti Ingólfs Margeirssonar og fjallar um líf og starf Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur stofnanda Sólheima.

Fyrri greinBíll við bíl í Kömbunum
Næsta grein3-5 þúsund manns í Galtalæk