Glæsileg þrettándagleði í frábæru veðri

Selfyssingar og nærsveitungar kvöddu jólin í kvöld með glæsilegri þrettándagleði; blysför, brennu og flugeldasýningu undir stjórn Ungmennafélags Selfoss.

Þrettándagleðinni var frestað í vikunni enda afleit veðurspá fyrir þriðjudagskvöldið. Spáin rættist en veðurguðirnir bættu fyrir það í kvöld og léku við hvern sinn fingur og mannfjöldinn naut kvöldsins undir stjörnubjörtum himni.

Farin var blysför frá Tryggvaskála að brennustæðinu við Gesthús með jólasveina og tröll úr Ingólfsfjalli fremst í flokki. Síðan var kveikt í brennu og UMFS og Björgunarfélag Árborgar skutu svo á loft glæsilegri flugeldasýningu af Fjallinu eina.

Góð mæting var á þennan rótgróna viðburð en talið er að um þrjúþúsund manns hafi verið á svæðinu. Ekki var annað að heyra á fólki en það væri ánægt með að halda þessa fjölskylduvænu uppákomu á föstudagskvöldi.

Fyrri greinNokkrir sunnlenskir listamenn á meðal launþega
Næsta grein„Ég er eiginlega hissa“