Glæsilegur fjallaskáli vígður við Hald

Réttardagur Áshreppinga var sl. sunnudag á Degi íslenskrar náttúru. Við það tækifæri var vígður nýr fjallaskáli við Hald á Holtamannafrétti.

Þar hafði um árabil staðið lítið hús, Ferjukot, en það hafði löngu lokið hlutverki sínu og viðhaldi ekki verið sinnt lengi því til stóð að endurnýja húsið.

“Fyrir um það bil ári síðan var ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um nýjan skála og bárust þrettán tillögur og margar mjög góðar og því úr vöndu að ráða,” sagði Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, í samtali við sunnlenska.is.

Skipuð var nefnd til þess að vinna úr tillögunum en hreppsnefnd Ásahrepps átti svo lokaorðið og valdi hugmynd Kvistfells á Selfossi, að skálanum sem nú er risinn. Hann var smíðaður á verkstæði Kvistfells og fluttur nánast tilbúinn á staðinn.

“Húsið er einstaklega fallegt og vel hannað og mun í framtíðinni þjóna fjall- og ferðamönnum á þessu svæði,” segir Eydís. “Það tekur 22 í kojum í tveggja til átta manna herbergjum og 30 manns í sæti í borðsal. Gert er ráð fyrir að rafmagn verði lagt að húsinu og í því verður bæði heitt og kalt vatn. Þarna er kominn tilvalinn áningarstaður í jaðri byggðar og mun hann nýtast til hvíldar eða veisluhalda um ókomna framtíð,” segir Eydís og bætir við að mörgum beri að þakka í sambandi við verkefni sem þetta.

“Sérstaklega vil ég þakka Þorsteini Þorvaldssyni hjá Kvistfelli fyrir gott samstarf á byggingartímanum en einnig gestum á réttardeginum og öllum þeim sem komu að undirbúningi og byggingu hússins og vígsluhátíðinni. Ekki síst Vilberg Skúlasyni sem hristi fram úr erminni með aðstoð Ástu og Gísla í Miðási vígsluveislu fyrir 120 manns eins og ekkert væri.”

eydis_thorsteinn160912je_504727137.jpg
Eydís oddviti ásamt Þorsteini yfirsmið hjá Kvistfelli. sunnlenska.is/Jórunn Eggertsdóttir