Glænýtt Útsvarslið í Árborg

Spurninga- og skemmtiþátturinn Útsvar hefur göngu sína á nýjan leik í Ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 20:45. Árborg og Ísafjörður leiða saman hesta sína í þessum fyrsta þætti og teflir Árborg fram alveg nýju liði.

Lið Árborgar skipa Guðrún Halla Jónsdóttir, þroskaþjálfi, Már Ingólfur Másson, sagnfræðingur og kennari og Ólafur Ingvi Ólason, frístundaleiðbeinandi og háskólanemi. Þeir Már og Ólafur taka við keflinu af bræðrum sínum, Þorsteini Tryggva og Páli Óla, sem skipuðu liðið í fyrra ásamt Hönnu Láru Gunnarsdóttur.

Liðsmenn Árborgar hafa hist í vikunni og farið yfir málin en ljóst er að andstæðingurinn verður ekkert lamb að leika sér við því Ísfirðingar eru með reynslumikið lið sem fór í 8-liða úrslit í fyrra.