Gjóska veldur gróðurskemmdum og jarðrofi

Allar götur frá því að eldgosið í Eyjafjallajökli hófst hefur Landgræðslan fylgst með áhrifum gjóskunnar á gróður og land með það fyrir augum að afla upplýsinga um áhrif slíkra atburða.

Nú er rúmt ár síðan eldgosinu lauk og á vef Landgræðslunnar er fjallað um rannsóknir hennar.

Stór svæði á heiðum og fjallendi urðu fyrir barðinu af öskufalli. Þar safnaðist askan í dældir og gil og útí árnar í haustrigningum en úttekt Veðurstofunnar og Landgræðslunnar sýnir að enn er gríðarlegt magn t.d. á fjalllendinu í Eyjafjöllum.

Í vetur hafa hins vegar orðið verulegar breytingar. Mikil og gróf gjóska hefur borist fram heiðarnar í nágrenni gosstöðvanna og sums staðar valdið miklum gróðurskemmdum og jarðvegsrofi. Dæmi er um að ¾ hlutar gróðurhulunnar hafi horfið ásamt þeim jarðvegi sem fyrir var. Þessi heiðasvæði eru ákaflega viðkvæm og máttu vart við áföllum á borð við Eyjafjallajökulsgosið.

Hið kalda vor sem fylgdi í kjölfarið í ár er enn frekara áhyggjuefni. Gróður virðist einnig hafa farið afar illa á bersvæðum við Markarfljót og á Þórsmerkursvæðinu. Þar hefur orðið mikið gjóskufok sem hefur valdið tjóni á trjágróðri, en einnig hefur lággróður farið illa, bæði vegna foks og gjósku sem lagst hefur yfir hann í vetur.

Landgræðslan hefur staðið fyrir ýmsum aðgerðum á gossvæðinu og hlaut til þess fjárveitingu frá ríkinu, bæði á sl. sumri og aftur í sumar. Það fé var nýtt til að styrkja úthagagróður til að binda öskuna og við flóðavarnir við árnar undir Eyjafjöllum.

Gróðurstyrking til að binda ösku er útilokuð á mestöllu því svæði sem ofar liggur eða er fjærri byggð. Bæði er erfitt að komast á mörg þeirra, og eins er um að ræða gríðarlega mikið landsvæði. Eina raunhæfa leiðin til að endurheimta gróður og landkosti er að huga vel að landnýtingu framtíðarinnar á þessum svæðum þannig að gróður eflist með sjálfgræðslu.

Rannsóknir á gossvæðunum hafa sýnt það að vel gróið land þolir gjóskuna mun betur en rýrt land, og vel skógi vaxið land virðist eiga auðvelt með að standast raskið sem fylgir gjóskunni. Slíkar aðgerðir kalla hins vegar á miklar breytingar í landnotkun sem sátt þarf að nást um. Það er hins vegar eina raunhæfa leiðin til að gróður verði í stakk búinn til að takast á við náttúruhamfarir á borð við Eyjafjallajökulsgosið 2010.

Frétt Landgræðslunnar