Gjöf til allra leikskólabarna

(F.v.) Anna Ingadóttir, deildarstjóri skólaþjónustu Árborgar, Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, kom færandi hendi í Ráðhús Árborgar í morgun með gjöf til leikskóla Árborgar; þjálfunarefni sem bætir framburð barna, eykur orðaforða og undirbýr læsi.

Bryndís hyggst gefa öllum leikskólum á Íslandi þetta þjálfunarefni en verkefnið vinnur hún í samstarfi við IKEA, Lýsi, Marel, Raddlist og hjónin Björgólf Thor og Kristínu Ólafsdóttur.

Bryndís hefur starfað í rúmlega 30 ár sem talmeinafræðingur og hefur m.a. gefið út námsefni undir heitinu Lærum og leikum með hljóðin sem ætlað er öllum barnafjölskyldum og skólum. Námsefnið byggir á fagþekkingu talmeinafræðinnar, rannsóknum og reynslu Bryndísar af því að vinna með börnum, foreldrum og fagfólki í skólum.

Í tilefni af þessum tímamótum í starfi ákvað Bryndís að gefa efnið til allra leikskóla á landinu. Það var mögulegt með eigin framlagi og stuðningi ofangreindra fyrirtækja og einstaklinga sem leggja áherslu á að hlúa þurfi að íslenskunni og læsi barna.

Auk þess að stoppa á Selfossi í dag kom Bryndís við í Hveragerði og á Hvolsvelli til þess að afhenda gjafirnar.

Fyrri greinMalmö eða Moskva hjá Selfyssingum
Næsta greinSex keppendur frá Selfossi til Bakú