Gjaldtaka við Geysi hefst 10. mars

Ferðamenn sem heimsækja hverasvæðið við Geysi í Haukadal þurfa, frá og með 10. mars næstkomandi, að greiða fyrir heimsóknina. Gjaldið er 600 krónur, en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Í tilkynningu frá Landeigendafélagi Geysis segir að heimsóknargjaldið renni til verndar og uppbyggingar á svæðinu sem verulega hefur látið á sjá undanfarin ár. Því er einnig ætlað að standa straum að aukinni upplýsingagjöf til ferðamanna, kröfum um meiri þjónustu við gesti svæðisins og til að bæta öryggi þeirra frá því sem nú er.

Hverasvæðið við Geysi í Haukadal er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og fjöldi gesta fer upp í 6.000 manns á dag, þegar mest er.

„Því fer fjarri að uppbygging á svæðinu hafi haldist í hendur við fjölgun ferðamanna á síðustu árum. Að óbreyttu þolir svæðið ekki þennan gríðarlega fjölda gesta og nú er svo komið að vinsælir og viðkvæmir hlutar svæðisins liggja undir skemmdum.

Eigendur svæðisins hafa í áranna rás borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu. Landeigendur bera ábyrgð á varðveislu svæðisins. Þeim ber að vernda þessa náttúruperlu og tryggja um leið að svæðið verði áfram aðgengilegt og öryggi ferðamanna tryggt eins og kostur er,“ segir í tilkynningunni.

Vinna við öryggisáætlun svæðisins og forgangsröðun verkefna vegna verndunar og uppbyggingar er þegar hafin. Gert er ráð fyrir því að átta til þrettán störf skapist við rekstur hverasvæðisins í nýrri og breyttri mynd, auk fjölda starfa meðan á nauðsynlegri uppbyggingu stendur.

Fyrri greinErill hjá lögreglu um helgina
Næsta greinFíkniefnamálum fjölgar