Gjaldtaka hæfist árið 2015 eða 2016

Innheimta veggjalda hæfist að loknum framkvæmdum á Suðurlandvegi árið 2015 eða 2016 og gætu verið 300 krónur milli Selfoss og Reykjavíkur.

Í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að fullyrt hafi verið í umræðunni að undanförnu að kostnaður við innheimtu veggjalda væri 28% af tekjum og vísað meðal annars til Hvalfjarðarganga.

Vegagerðin segir þessa tölu úr lausu lofti gripna og ekki í nokkrum takti við innheimtukostnað í Hvalfjarðargöngunum sem er um 13% af tekjum. Nútímagjaldstöðvar erlendis hafa verið að þokast í þá átt að innheimtan verði alsjálfvirk. Með því móti hefur tekist að koma innheimtukostnaðinum niður fyrir 10% og víða í 5-7% af tekjum.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að þar á bæ væri rætt um 300 kr gjald milli Reykjavíkur og Selfoss en 400 ef ekið er framhjá Selfossi á nýrri brú og vegi fyrir utan bæinn.

“Þetta eru náttúrulega viðmiðunartölur á þessu stigi máls, en ekki kæmi til innheimtu veggjalda fyrr en að loknum framkvæmdum 2015-2016,” segir Pétur og bætir við að óútfært sé hver yrðu afsláttakjör fyrir þá sem aka mikið þessa leið.