Gjaldtaka að hefjast í Silfru

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hyggst ráðast í nokkrar framkvæmdir og lagfæringar til þess að auðvelda aðgengi kafara og annara ferðamanna að Silfru á Þingvöllum.

Í kjölfar þess verður ráðst í að innheimta gjald af þeim sem kafa í gjánni og segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður að líklega myndi gjaldtaka hefjast um næstu áramót. Ekki liggur fyrir hve há hún er en köfunarþjónustufyrirtækin innheimta tugi þúsunda hjá viðskiptavinum sínum fyrir að kafa og segir Ólafur Örn að gjaldtaka yrði að skoðast í því samhengi.

Ólafur Örn segir að nauðsynlegt sé að ráðast í breytingar á aðkomunni að Silfru í kjölfar gríðarlegrar aukningar á aðsókn. Væri svo komið að umhverfi Silfru þyldi ekki frekari átroðslu án þess að skipulagi og gjaldheimtu væri komið á.

,,Við viljum að Þjóðgarðurinn nýtist fólki áfram en það er nauðsynlegt að koma skipulagi á málin. Um leið teljum við eðlilegt að þeir sem noti aðstöðuna greiði fyrir það,” sagði Ólafur Örn.

Ætlunin er að setja upp salernisaðstöðu og bílastæði auk þess sem auknar öryggiskröfur verða gerðar.

Eins og flestir vita er Silfra gríðarlega vinsæl meðal kafara vegna tærleika vatnsins og hefur aðsókn aukist jafnt og þétt og sér nú verulega á mosagróðri í kringum gjána. Það er sérstaklega yfirborðsköfun sem hefur færst í aukana undanfarið en minnikunnáttu þarf til að stunda hana.

Allmörg ferðaþjónustufyrirtæki gera nú út á þessa þjónustu.

Fyrri greinKynbætur skila Sunnlenskum bændum 25 milljóna hagnaði
Næsta greinBók sem virkjar hugmyndaflugið