Gjaldskrá Selfossveitna hækki um 18%

Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja til við bæjarstjórn að gjaldskrá Selfossveitna hækki um 18% frá 1. janúar nk.

Samkvæmt fundargerð veitustjórnarinnar er hún gerð til að tryggja afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa Árborgar. Á fundinum í morgun var farið var yfir fjárfestingarþörf vegna orkuöflunar á árunum 2011 – 2020 sem er samtals á bilinu 685 – 735 milljónir.

Afkastageta Selfossveitna er nánast fullnýtt þegar kalt er í veðri og því telur veitustjórn nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir við orkuöflun. Auk þess hefur bilanatíðni í borholum, dælum og öðrum búnaði aukist vegna jarðskjálftans 2008 með tilheyrandi kostnaði.