Gjaldskrá íþróttamiðstöðvarinnar breytt eftir álit ráðuneytisins

Ljósmynd/GOGG

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur ákveðið að breyta gjaldskránni fyrir Íþróttamiðstöðina Borg eftir að innviðaráðuneytið úrskurðaði að gjaldskráin væri ólögmæt.

Ráðuneytinu barst erindi árið 2021 vegna meintrar mismununar í gjaldtöku fyrir sundlaug og íþróttamiðstöð þar sem íbúar sveitarfélagsins fengu árskort á þrefalt lægra verði en aðrir notendur. Niðurstaða ráðuneytisins var að gjaldskrá sveitarfélagsins væri ekki í samræmi við jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og væri þar með ólögmæt.

Sveitarstjórn samþykkti breytingar á gjaldskránni á fundi sínum í morgun og taka breytingarnar gildi þann 1. ágúst næstkomandi.

Eftir það þurfa íbúar á aldrinum 18-66 ára með lögheimili í sveitarfélaginu að kaupa árskort í sund og þreksal á 37.000 krónur sem áður voru 15.000 krónur og börn á aldrinum 10-17 ára munu eftirleiðis borga 19.000 krónur fyrir árskort í stað 6.000 króna.

Þá er íbúum í sveitafélaginu ekki lengur boðið að leigja íþróttasalinn á Borg fyrir barnaafmæli á 6.500 krónur.

Fyrri greinÓlympíudagurinn haldinn hátíðlegur í Þorlákshöfn
Næsta greinEitt tilboð barst í Suðurvararbryggju