Gjaldskrá hækkar um 3,4% um áramótin

Samkvæmt fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2015 þá er gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum upp á 3,4% um áramótin.

Þetta eru gjaldskrá Selfossveitna sem og gjaldskrá fyrir ýmsa þjónustu, s.s. leikskólagjöld, skólamat, skólavistun og hundaleyfisgjald. Ekki hækkar í sund og bókasafnskort hækka ekki.

Er gjaldskráin látin fylgja verðlagsþróun í landinu. Í fyrra var þó gerð sú undantekning að gjaldskrá vegna þjónustu við börn (leikskóli, skólavistun og skólamatur) hækkaði ekki á milli ára og var það liður í þeirri viðleitni sem var í samfélaginu við að halda aftur af verðbólgu.

„Gjaldskrár fyrir þessa þjónustu hafa því ekki hækkað síðan í janúar 2013, en á sama tíma hefur orðið talsverð hækkun á kostnaðarliðum, bæði hefur launakostnaður hækkað vegna kjarasamningshækkana og ýmis aðföng eru dýrari,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Fyrri greinSelfyssingar lentu á vegg
Næsta greinRafstöð stolið í Hveradölum