Gjaldfrjáls leikskóli fyrri hluta dags á Flúðum

Leikskólabörn á Flúðum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Undraland

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur samþykkt að breyta gjaldskrá leikskólans Undralands á þann veg að ekkert gjald verði greitt fyrir vistun barna frá 8:00 til 14:00.

Aftur á móti verður tekið 6.000 króna gjald fyrir tímann milli klukkan 14 og 15 og vistun milli klukkan 14 og 16 kostar 14.000 krónur.

Þessi breyting var samþykkt af skólanefnd og bókaði nefndin á fundi sínum að með þessu væri komið til móts við þau sjónarmið sem komið hafa fram um breytt eðli leikskólastarfs.

„Vonir eru bundnar við að dvalartími barna styttist, með það að markmiði að auka samverustundir fjölskyldunnar og vonast skólanefnd til að samfélagið allt sýni þessu skilning,“ segir í fundargerð skólanefndar.

Fyrri greinEva María og Egill íþróttafólk ársins á Selfossi
Næsta greinJóladjazz í Tryggvaskála í kvöld