Gjaldfrjáls bókasöfn fyrir íbúa Rangárþings ytra

Bókasafnið á Hellu er notalegt og rúmgott. Ljósmynd/Aðsend

Um síðustu áramóti hætti Rangárþing ytra að rukka íbúa fyrir útlán á bókasöfnum sveitarfélagsins. Bókasöfnin eru þrjú, staðsett í Grunnskólunum á Hellu og Laugalandi og í íþróttahúsinu í Þykkvabæ.

Rangárþing ytra er meðal fyrstu sveitarfélaga landsins sem tekur þetta skref og segist Birta Huld Halldórsdóttir, kennari og bókasafnsvörður á Hellu, hafa tekið eftir nokkrum nýjum andlitum eftir þessa breytingu.

Birta segir að þótt rýmið sé ekki stórt sé bókakosturinn frábær, eða fleiri en 14.000 bækur, og hvetur fólk til að kíkja í heimsókn þar sem reglulega bætast nýjar bækur við safnið.

Almenningsbókasafnið á Hellu hefur verið í Grunnskólanum á Hellu frá árinu 1999 en saga þess nær aftur til ársins 1906 þegar nokkrar konur úr sveitinni stofnuðu Lestrarfélag kvenna á Rangárvöllum.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að Rangárþing ytra sé fjölbreytt fjölmenningarsamfélag og gjaldfrjáls útlán bókasafnanna séu heillaskref í átt að jafnara samfélagi sem hvetur íbúana til að lesa og leita sér fróðleiks og skemmtunar.

Fyrri greinMarín Laufey glímudrottning Íslands í sjötta sinn
Næsta greinMálþing um samskiptasáttmála í Vallaskóla