Gjáin rannsökuð áfram í dag

Frá mælingunum á botni Ölfusár þann 16. mars síðastliðinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir hádegið í dag mun Björgunarfélag Árborgar ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslu og sérsveitar ríkislögreglustjóra halda áfram vinnu við fjölgeislamælingar á botni Ölfusár fyrir neðan Ölfusárbrú.

Þar er um að ræða framhald þeirrar vinnu sem unnin var 16. mars síðastliðinn, þegar gjáin neðan brúar var rannsökuð.

Í dag munu starfsmenn háskólaseturs Vestfjarða aðstoða við vinnuna en þaðan eru fengin tæki til verksins, annarsvegar nýr fjölgeislamælir (multibeam) og hinsvegar hliðarhljóðbylgjutæki (sidescansonar).

Lögreglan á Suðurlandi vonast til þess að þessi vinna skili ítarlegri myndum af lögun gjárinnar á þessum stað en fengust í fyrri aðgerð.

Selfossvegur lokaður á tímabili
Vegna þessa má búast við umferðartöfum á Selfossvegi eftir hádegi en hann verður auk þess lokaður á tímabili í tengslum við ráðstefnu Brunavarna Árnessýslu um hættur við bíla með aðra eldsneytisgjafa en díselolíu eða bensín, sem haldin er á Hótel Selfossi í dag.

Fyrri greinGuðmunda áfram formaður frjálsíþróttaráðs
Næsta greinMetvelta í marsmánuði