„Gjáin og fossarnir öðlast verðugan sess“

Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu hluta Þjórsárdals sem landslagsverndarsvæði.

Innan svæðisins eru þrír þekktir staðir sem samhliða eru friðlýstir sem náttúruvætti, þ.e. Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Um er að ræða fyrstu friðlýsingu í friðlýsingarflokki landslagsverndarsvæða hérlendis.

Gjáin hefur verið vinsæll ferðamannastaður og er helsta aðdráttaraflið líttröskuð náttúra og friðsæld. Háifoss, Granni og Stöng eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Þjórsárdal. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Í friðlýsingarskilmálum er tekið fram að þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins verður miðað að því að tryggja að þeim verði haldið við.

Friðlýsing skilar strax árangri
Auk þess að vera fyrsta landslagsverndarsvæðið á Íslandi er friðlýsingin sú fyrsta sem fellur undir viðkvæm svæði undir álagi ferðamanna í friðlýsingarátaki ráðherra.

„Gjáin og fossarnir öðlast hér verðugan sess á meðal friðlýstra svæða á Íslandi. Þetta er mjög gott dæmi um hvernig megi beita friðlýsingum sem aðferð við að stýra álagi ferðamanna á náttúruperlur okkar, m.a. með auknum innviðum og landvörslu. Við settum aukið fjármagn í slík verkefni strax í fyrra á meðan á undirbúningi friðlýsingar stóð sem þegar hefur skilað árangri í vernd svæðisins og stýringu ferðamanna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Aukinn kraftur í umönnun svæðisins
Friðlýsingin var unnin í samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og forsætisráðuneytið. Eftir að friðlýsingaferlið hófst var tekin ákvörðun um að leggja aukinn kraft í umönnun svæðisins og eftirlit og var landvarsla því í fyrsta skipti á svæðinu frá sumarbyrjun til loka nóvember í fyrra. Á þeim tíma var farið í viðhald á helstu gönguleiðum og villustígum lokað, settar voru upp girðingar og leiðbeinandi skilti og stikuðum leiðum var haldið við. Hluti af villustígum voru græddir upp og hefur gróður þar tekið við sér samhliða aukinni stýringu gangandi umferðar um svæðið. Þá var unnið að skipulagningu gönguleiða um svæðið og er áætlað að það skipulag liggi fyrir á næstunni.

Undirritunin fór fram í Árnesi í dag  og bauð sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur viðstöddum til kaffisamsætis að henni lokinni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBorgarverk bauð lægst í Þórsmerkurveg
Næsta greinÞór varð undir á lokakaflanum