Gjafir frá velunnurum HSU

Fulltrúar Kvenfélags Selfoss færðu HSU lífsmarkamæli. Ljósmynd/HSU

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga góða og sterka bakhjarla víða sem færa stofnuninni reglulega góðar gjafir.

Í sumar færðu Oddfellowsystur í Rebekkustúku nr. 20 Halldóru I.O.O.F. heilsugæslunni á Selfossi lyfjadælu að verðmæti 266.600 kr. Lyfjadælan er fyrir heimahjúkrun heilsugæslu Selfoss og er ætluð til lífslokameðferðar fyrir sjúklinga sem kjósa að dvelja heima.

Núna í nóvember færði Kvenfélag Selfoss bráða- og slysamóttökunni lífsmarkamæli að andvirði um 479.000 króna. Tækið tengist þráðlaust móðurstöð, þar sem hægt er að fylgjast með ástandi sjúklings sem liggur inni. Það er færanlegt á hjólastandi, svo hægt er að fara með það milli herbergja, tækið mælir blóðþrýsting, púls, hita og súrefnismettun.

Í tilkynningu frá HSU segir að báðar þessar gjafir séu kærkomin viðbót í tækjabúnað deildanna og bætir aðbúnað og öryggi sjúklinga og starfsmanna. „Það er ómetanlegt að finna þann hlýhug sem svona gjöfum fylgir og aldrei hægt að fullþakka. HSU þakkar innilega fyrir gjafirnar og óskar þessum félagasamtökum báðum velfarnaðar,“ segir í tilkynningunni.

Oddfellowsystur í Rebekkustúku færðu heilsugæslunni á Selfossi lyfjadælu. Ljósmynd/HSU
Fyrri greinSkjálfti í Þórsurum á lokakaflanum
Næsta greinPétur Rúðrik sigraði á Opna Selfoss