Gistirúmin tvöfalt fleiri en íbúarnir

„Gróflega áætlað eru hér um 852 pláss í um 380 rýmum,“ segir Eiríkur Vilhelm Sigurðsson, forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal aðspurður um fjölda gistiplássa í sveitinni.

Alls eru það 24 aðilar sem bjóða upp á gistingu í Mýrdalshreppi.

Stærstu gististaðirnir eru Hótel Dyrhólaey með 82 herbergi, Hótel Höfðabrekka með 74 herbergi og í Hótel Vík eru sem stendur 71 herbergi. Til samanburðar eru alls 165 heimili í sveitarfélaginu, og ekki höfð heilsárs viðvera í þeim öllum.

Þannig eru 32 hús í þorpinu í Vík þar sem enginn hefur fasta viðveru. Eiríkur segir ferðaþjónustu vera á hraðri uppleið í sveitarfélaginu og full þjónusta við ferðamenn alla daga.