Gísli Halldór ráðinn bæjarstjóri í Árborg

Gísli Halldór Halldórsson.

Nýr meirihluti í bæjarstjórn Árborgar hefur gengið frá ráðningarsamningi við Gísla Halldór Halldórsson um starf bæjarstjóra í Árborg.

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í morgun. Formlega verður gengið frá ráðningu Gísla á næsta fundi bæjarráðs þann 2. ágúst og mun hann hefja störf síðar í ágústmánuði. Eggert segir nýja meirihlutann vænta mikils af störfum Gísla í framtíðinni.

Gísli Halldór er 51 árs gamall og hefur undanfarin fjögur ár starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Áður var hann forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 2006 til 2014, auk þess að gegna formennsku í ýmsum ráðum og nefndum á vegum bæjarins.

Gísli Halldór lauk Cand. Oecon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og námi í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólanum á Akureyri árið 2010.

Fimmtán umsækjendur voru um starf bæjarstjóra en ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs. Sjö umsækjendur voru boðaðir í viðtal.

Gísli er kvæntur Gerði Eðvarsdóttur, fjármálastjóra Snerpu, og eiga þau þrjú uppkomin börn. Þau hjónin munu flytja í sveitarfélagið á næstu vikum.

Fyrri greinSjötta tap Ægis í röð
Næsta greinÁrborg endurheimti toppsætið