Geysissvæðið að drabbast niður

Geysissvæðið í Haukadal er að drappast niður, segja fimm þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu.

Þeir vilja að aðgengi ferðamanna að svæðinu verði bætt og göng fyrir fótgangandi gerð þar undir þjóðveginn frá bílastæðum. Þingsályktunartillaga sem Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson og fleiri hafa lagt fram verður rædd í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á mánudaginn.

Í greinargerð með tillögunni segir að Geysissvæðið, eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins, hafi verið að drabbast niður jafnt og þétt. Meira að segja öryggismerkingar, hvað þá aðrar merkingar, á hverum séu orðnar máðar og ólæsilegar. Hellustígar þeir sem lagðir voru sem fyrsti hluti stígakerfis á svæðinu í tíð Geysisnefndar menntamálaráðuneytisins séu orðnir ruslaralegir á köflum og hættulegir.

Auk Árna og Björgvins standa að tillögunni þrír aðrir þingmenn úr Suðurkjördæmi, þau Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Vísir greindi frá þessu