Geysir skvettir úr sér

Ferðamenn á Geysissvæðinu hafa orðið varir við það að undanförnu að Geysir gamli hafi verið að skvetta úr sér. Heimamenn segja þetta venjulegar hræringar.

Þórey Jónasdóttir, umsjónarmaður á Geysissvæðinu, segist ekki hafa orðið vör við aukna virkni í goshvernum að neinu ráði.

„Það er helst að Geysir skvetti úr sér eldsnemma á morgnana og seint á kvöldin og hann er virkari ef það er lægð yfir landinu. Þetta eru bara þessar smáskvettur sem hafa verið að koma úr honum undanfarin ár. Hann bankar aðeins á undan og svo kemur skvetta og þeim getur fylgt góður gufustrókur,“ sagði Þórey í samtali við sunnlenska.is.

Geysir hefur látið lítið fyrir sér fara á undanförnum árum en eftir Suðurlandsskjálftana sumarið 2000 tók hann aftur að gjósa í stuttan tíma.

„Menn hafa verið að ýja að því að það væru einhverjar breytingar á svæðinu útaf skjálftahrinum á undanförnum misserum en ég hef ekki orðið vör við þær. Aðrir hverir haga sér eins og áður og Strokkur gýs reglulega. Auðvitað tekur fólk samt eftir því þegar Geysir gýs ef það er svo heppið að vera á svæðinu á þeim tíma,“ sagði Þórey ennfremur.

Að sögn hennar hefur verið gífurleg umferð ferðamanna á Geysissvæðinu í sumar og ennþá sé mikið að gera en oft hafi dregið úr ferðamannaumferð eftir verslunarmannahelgi.