„Krefjandi en einnig mjög skemmtilegur og gefandi málaflokkur“

Björn Ingi Jónsson. Ljósmynd/Úr einkasafni

Björn Ingi Jónsson hefur verið ráðinn verkefnisstjóri í almannavörnum hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi og hefur störf um komandi áramót.

Björn Ingi kemur í stað Víðis Reynissonar sem sinnt hefur starfinu frá ársbyrjun 2016.

„Starfið leggst mjög vel í mig. Ég er fullur tillhlökkunar að fara að starfa með öllu því góða fólki sem kemur að og tengist þessum málum á öllu Suðurlandi. Ég hef verið tengdur við þennan málaflokk í nokkuð mörg ár og veit að hann getur verið krefjandi en einnig mjög skemmtilegur og gefandi,“ sagði Björn Ingi í samtali við sunnlenska.is.

Björn Ingi mun sinna starfinu í umboði lögreglustjóra og sveitarfélaga í umdæminu en hann hefur langa reynslu af störfum í björgunargeiranum og setið bæði sem formaður Björgunarfélags  Hornafjarðar og í svæðisstjórn björgunarsveita þar eystra.

Hann starfaði sem héraðslögreglumaður um 10 ára skeið og sem afleysingamaður í lögreglu yfir sumartímann þar að auki. Þá hefur hann setið í almannavarnarnefnd frá árinu 2006 og sem formaður hennar þau fjögur ár sem hann var bæjarstjóri hjá Sveitarfélaginu Hornafjörður.

Björn Ingi var valinn úr hópi tíu umsækjenda sem sóttu um starfið.

Fyrri greinSelfoss áfram eftir rosalegar lokasekúndur
Næsta greinKveikti í hárinu á mér í erfidrykkju