Getur valdið straumhvörfum í skipulagsmálum

Hæstiréttur hefur úrskurðað að rifta skuli kaupsamningi hjóna og Grímsnes- og Grafningshrepps vegna kaupa á lóð í Ásborgum í Grímsnesi haustið 2007.

Hjónin töldu forsendur samningsins breyttar með tilkomu gistiaðstöðu og veitingastaðar í Grímsborgum með þeim rökum að þau töldu sig hafa verið að kaupa íbúðarlóð í friðsælu umhverfi. Hreppurinn hafi síðar gefið jákvæða umsögn um rekstur veitinga- og gististaðar í hverfinu sem hafi reynst í andstöðu við lög.

Hreppurinn þarf að greiða hjónunum tæpar 6,2 milljónir króna vegna riftunar auk tveggja milljón króna í málskostnað.

Dómurinn er af sumum lögmönnum sem Sunnlenska ræddi við, talinn vera fordæmisgefandi sem getur leitt til þess að aðrir þeir sem óska eftir riftun á kaupum á lóðum í Ásborgum eigi rétt á slíku og að hreppurinn verði að endurgreiða kaupverð lóðanna auk annarra gjalda sem greidd hafa verið af þeim.

Samkvæmt skipulagi eru lóðirnar 36 talsins. Ólafur Laufdal veitingamaður hefur byggt á átta þeirra og nokkur önnur hús eru risin á svæðinu. Eftir því sem næst verður komist eru ellefu lóðir óseldar.

Gunnar Þorgeirsson oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps segist undrast dóminn mjög og það geti haft víðtækar afleiðingar ef ekki megi breyta skilgreiningu á lóðum. Hann segir það verða að koma í ljós hvernig hreppurinn bregðist við komi til frekari riftunarkrafna á lóðum í Ásborgum.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinLokatölur: Öruggt hjá Ragnheiði – Árni kemst ekki á blað
Næsta greinHamar reif sig upp eftir bikartapið