„Getum aukið hamingjuna með einföldum leiðum“

Þriðjudaginn 18. september mun knattspyrnumaðurinn og bloggarinn Bergsveinn Ólafsson, betur þekktur sem Beggi Ólafs, halda fyrirlestur í verslunni Stúdíó Sport á Selfossi.

„Linda í Stúdíó Sport hafði samband við mig og mér leist svo svakalega vel á það sem þau eru búin að vera gera í kringum búðina að ég ákvað að slá til. Þetta er líka mjög góð afsökun til að nýta tækifærið og skella sér í bústað í leiðinni. Auk þess eru miklar líkur á að ég stoppi á Yellow og heimsæki Magga Peru,“ segir Bergsveinn í samtali við sunnlenska.is

Fyrirlesturinn ber heitið Blómstraðu og að sögn Bergsveins er hann fyrir þá sem vilja líða virkilega vel í lífinu.

„Í fyrirlestrinum er farið yfir hæfilega krefjandi atriði sem einstaklingar geta hagnýtt í daglegt líf til að líða ennþá betur. Það kemur skemmtilega á óvart hvað ákvarðar okkar hamingju og hvernig við getum aukið hana með einföldum leiðum,“ segir Bergsveinn en hann er leggur stund á mastersnám í sálfræði.

„Ég legg áherslu á virka þáttöku og allir sem koma á fyrirlesturinn fá verkefnahefti með einföldum æfingum sem ég tala meðal annars um á fyrirlestrinum,“ segir Bergsveinn.

Bergsveinn segir að fyrirlesturinn sé alla, unga sem aldna. „Fyrirlesturinn er fyrir konur og karla, fyrir þá sem líða vel, fyrir þá sem líður ekki nógu vel og allt þar á milli. Það er nefnilega ekki samsemmerki á milli þess að vera laus við andleg veikindi og að blómstra í lífinu. Mitt helsta markmið er að hann hafi góð áhrif á lífið hjá fólki,“ segir Bergsveinn.

„Ég er mjög spenntur fyrir að koma og ég hlakka til að sjá ykkur sem flest,“ segir Bergsveinn að lokum.

Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook.

Fyrri greinHildur Helga bætti 19 ára gamalt met
Næsta grein„Frábær tíðindi fyrir okkur“