Geta ekki unað því að dregið sé úr þjónustu

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Rangárþings eystra harmar þær breytingar sem boðaðar hafa verið á fyrirkomulagi sjúkraflutninga í Rangárvallasýslu.

Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku.

„Til að standa vörð um öryggi íbúa og gesta sýslunnar er mikilvægt að viðbragðstími sjúkraflutninga sé eins stuttur og kostur er. Íbúa og ferðamannafjöldi hefur aukist til muna á undanförnum árum og eins hefur útköllum sjúkrabíla fjölgað umtalsvert, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Því getur sveitarstjórn ekki unað því að dregið sé úr þjónustu í stað þess að bæta í,“ segir í bókun sveitarstjórnar sem samþykkt var samhljóða á fundinum.

Sveitarstjórn mun funda með Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra HSU, á morgun þriðjudag vegna málsins.

Fyrri greinFótboltinn farinn að rúlla
Næsta greinÞrjú ný götuheiti samþykkt í Hrunamannahreppi