Gestur leiðir D-listann – Elliði bæjarstjóraefni

Hluti frambjóðenda D-listans í Ölfusi. Ljósmynd/Aðsend

Gestur Þór Kristjánsson, húsasmíðameistari og forseti bæjarstjórnar leiðir D-lista Sjálfstæðisfélagsins Ægis í komandi sveitarstjórnarkosningum í Sveitarfélaginu Ölfusi. Bæjarstjóraefni D-listans verður Elliði Vignisson.

Sjálfstæðisfélagið Ægir hefur samþykkt framboðslistann og í tilkynningu segir að á honum sé fjölbreyttur hópur fólks, með víðtæka þekkingu og reynslu úr ólíkum áttum. Mikil endurnýjun er á listanum en einnig er þar að finna reynslumikla einstaklinga á sviði sveitarstjórnarmála sem hafa komið að ábyrgri stjórnun þess seinustu árin.

Á listanum eru frambjóðendur bæði úr Þorlákshöfn og dreifbýli Ölfuss. Margir eru fæddir og uppaldir í sveitarfélaginu en einnig eru í framboði einstaklingar sem flutt hafa í sveitarfélagið á síðustu árum.

Framboðslistinn verður sem hér segir:
1. Gestur Þór Kristjánsson, 49 ára, húsasmíðameistari og forseti bæjarstjórnar
2. Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, 29 ára, bóndi og viðskiptafræðingur
3. Grétar Ingi Erlendsson, 38 ára, sölu- og markaðsstjóri og formaður bæjarráðs
4. Erla Sif Markúsdóttir, 33 ára, grunnskólakennari í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
5. Guðlaug Einarsdóttir, 45 ára, grunnskólakennari í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
6. Geir Höskuldsson, 31 árs, byggingaiðnfræðingur
7. Davíð Arnar Ágústsson, 25 ára, kennaranemi og körfuknattleiksleikmaður
8. Margrét Polly Hansen Hauksdóttir, 40 ára, hótelstjórnandi og frumkvöðull
9. Sigríður Vilhjálmsdóttir, 38 ára, lögfræðingur og formaður fræðslunefndar
10. Hjörtur Sigurður Ragnarsson, 33 ára, sjúkraþjálfari
11. Bettý Grímsdóttir, 48 ára, hjúkrunarfræðingur
12. Oskar Rybinski, 19 ára, nemi og starfsmaður í félagsmiðstöð
13. Steinar Lúðvíksson, 38 ára, sérfræðingur hjá Landsvirkjun
14. Anna Lúthersdóttir, 79 ára, heldri borgari

„D-listinn hefur nú skipað meirihluta í hart nær fjögur ár. Undir hans stjórn hefur Sveitarfélagið Ölfus vaxið og dafnað. Velferð íbúa ásamt uppbyggingu í innviðum með áherslu á atvinnumál hafa verið í forgangi. Umfjöllun um sveitarfélagið hefur verið mikil og má með sanni segja að það hafi verið á allra vörum vegna þess krafts sem þar er að finna. Aldrei hafa verið fleiri íbúar, mikill kraftur er í byggingum bæði íbúðarhúsnæðis og iðnaðarhúsnæðis, höfnin er að stækka mikið, atvinnutækifærum að fjölga og þjónusta hefur verið aukin með áherslu á börn, fjölskyldur og eldri borgara. Íbúar vita því fyrir hvað D-listinn stendur og fái frambjóðendur til þess umboð munu þeir stíga en fastar fram í sókn fyrir samfélagið,“ segir í tilkynningu frá D-listanum í Ölfusi.

Fyrri greinAha.is þjónustar fjóra veitingastaði á Selfossi
Næsta greinUppsveitir grasrótarfélag ársins