Gestum hverasvæðisins fækkaði ekki vegna gjaldtökunnar

Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands, segir að gestum hverasvæðisins í Hveragerði hafi ekki fækkað vegna þess að gjaldtaka hafi hafist á svæðinu í ár.

„Það kom varla fyrir að gestir hættu við heimsókn í Hveragarðinn vegna gjaldtökunnar,“ segir Sigríður Dögg og bætir við að heldur segja að veðurguðirnir hafi átt þátt í að færri ferðamenn hafi almennt komið til Hveragerðis. „Sumarið var kalt og votviðrasamt á Suðurlandi og hafði það áhrif víða,“ segir Sigríður Dögg. Aðgangseyrir í garðinn er 200 krónur.

Í gær fluttu fjölmiðlar fréttir af því að gestum hafi fækkað um tíuþúsund eftir að gjaldtaka hófst á hverasvæðinu. Sigríður segir að þær upplýsingar séu teknar úr samhengi.

Í fyrra komu 22 þúsund gestir í Hveragarðinn og var það algjört metár. Nú í lok október hafa um 10.500 gestir komið í garðinn og lítið vantar uppá að gestafjöldinn nái að standast áætlun en gert var ráð fyrir að heimsóknum gæti fækkað um helming vegna gjaldtökunnar. Umferð ferðamanna hafi almennt verið minni í bænum í sumar vegna veðurs.

Tekjurnar sem koma inn af aðgangseyrinum verða notaðar til viðhalds, fegrunar og til frekari uppbyggingar svo sómi sé af.

Sigríður veltir því fyrir sér hvort hlutirnar hafi verið teknir úr samhengi til að sýna fram á andstöðu við gjaldtöku á Geysissvæðinu, þ.e. að gestum ætti eftir að fækka gríðarlega.

„Sumarið hefur sýnt að svo er ekki og er Hveragerðisbær stoltur af því að hafa riðið á vaðið með að rukka inná vinsæla áningarstaði ferðamanna eins og víða er gert erlendis til að þjónustan verði sem allra best og um leið að náttúruminjar verði verndaðar enn betur,“ segir Sigríður að lokum.