Gestir greiða fyrir aðgang að Skálholtsdómkirkju

Skálholt, dómkirkjan og bærinn, séð til norðurs. Ljósmynd © Mats Wibe Lund

Aðgangur fyrir almenning inn í Skálholtsdómkirkju kostar allt að 500 krónum. RÚV greinir frá því að í fyrravor hafi kirkjuráð tekið ákvörðun um að byrja að taka gjald fyrir aðgang að kirkjunni.

Kristján Björnsson vígslubiskup bendir á að áður fyrr hafi verið tekið gjald fyrir aðgang að sýningu í kjallara kirkjunnar, en í fyrravor hafi verið ákveðið að breyta því þannig að gestir kirkjunnar greiði aðgang þótt þeir fari ekki niður í kjallarann.

Ef nokkrir gestir eru saman er innheimt lægri upphæð. Þannig hefur verið miðað við að ef fólk væri saman í fólksbíl væru innheimtar 750 krónur samtals fyrir alla í bílnum, 1500 krónur fyrir meðalstóra bíla og svo 3000 krónur fyrir rútur. Einstaklingar greiða 500 krónur. Vígslubiskup segir gjaldið gagnast fyrir rekstur á kirkjunni; þrif, gæslu og annað. Ekkert gjald er tekið fyrir aðgang þegar kirkjulegar athafnir eða aðrir viðburðir standa yfir.

Fyrri greinHamar hafði betur á Stokkseyri
Næsta greinHáskólinn standi vörð um garðyrkjunámið