Gestabók á Ingólfsfjall

Í síðustu viku komu félagar í Ferðafélagi Árnesinga fyrir gestabók í vörðunni á Ingólfsfjalli, þar sem gengið er upp hjá Þórustaðanámu.

Hagverk bifreiðasmiðja smíðaði glæsilegan stálkassa utan um gestabókina og var honum komið fyrir í síðustu viku ásamt gestabók. Þessi leið er nú mikið gengin og farin að markast allgóð góð og troðin braut, þó vissulega sé hún brött og stórgrýtt á kafla.

Það er von ferðafélagsfólks að sem flestir göngumenn riti nafn sitt í bókina og kannski geri grein fyrir ferðinni sé ástæða til. Síðastliðinn sunnudag höfðu 62 skráð nafn sitt í bókina.

Mikill kraftur er í starfsemi Ferðafélags Árnesinga og að jafnaði tveir viðburðir í gangi alla mánuði ársins. Næstu viðburðir eru:

4. september, laugardagur.
Syðsta-Súla komið niður á Leggjabrjót. Frábært útsýni. Hækkun um 850 m. Göngutími um 8 klst.
18. september, laugardagur.
Hvalfell frá Þingvöllum. Löng ganga með fögru útsýni. Hækkun um 450 m. Göngutími 6-8 klst.

Mæting er við Samkaup á laugardaginum kl. 9:00 þar sem sameinast verður í bíla. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar um starfsemina og næstu ferðir á heimasíðu félagsins. Þar er einnig hægt að skrá sig í félagið.

Fyrri greinMinni veiði en meiri vigt
Næsta greinSelfoss – Valur 2-3