„Hrekkjavakan gekk ótrúlega vel, fór algjörlega fram úr mínum villtustu vonum!“ segir Elísa Björk Jónsdóttir.
Elísa tók að sér að skipuleggja Hrekkjavökuna á Selfossi sem haldin var hátíðleg víðsvegar um Selfossbæ í kvöld, 31. október. Er þetta í fyrsta skipti sem Hrekkjavakan er haldin með skipulögðum hætti á Selfossi.
„Rúmlega 140 heimili tóku þátt og í kringum 230 börn. Það sem kom mest á óvart var hversu margir voru tilbúnir í þetta og hversu margir fóru alla leið í skreytingum og búningum,“ segir Elísa í samtali við sunnlenska.is.
„Þeir sem voru heima að taka á móti börnunum voru margir hverjir í búningum og á einhverju heimili var aðkoman svo svakaleg að börnin voru hálf smeyk,“ segir Elísa og hlær.
„Ég vil bara þakka öllum sem tóku þátt! Án ykkar hefði þetta aldrei orðið að veruleika og ekki má gleyma fyrirspurninni hennar Bylgju Daggar inni á Íbúar á Selfossi Facebook-síðunni sem varð kveikjan að þessu öllu saman. Svo gerum við þetta enn stærra á næsta ári!“ segir Elísa glöð að lokum.
Myndirnar hér að neðan tók Erla G. Sigurjónsdóttir sem tók á móti fullt af kurteisum og skemmtilegum krökkum í Lambhaganum.