Gert ráð fyrir jákvæðum rekstri hjá Hveragerðisbæ

Hveragerðisbær. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir.

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar var samþykkt samhljóða þann 10. desember síðastliðinn.

Áætlunin var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, var samstarfið til fyrirmyndar. 

Gert er ráð fyrir að heildartekjur Hveragerðisbæjar, aðalsjóðs, A- og B-hluta, verði rúmlega 3,3 milljarðar króna og rekstrargjöld og afskriftir rúmlega 3,1 milljarðar króna. Niðurstaða samstæðunnar án fjármagnsliða er því jákvæð um 187 milljónir króna sem er 5,6% af tekjum sveitarfélagsins.

„Ekki mikill afgangur en niðurstaðan er þó jákvæð sem er betra en bjartsýnustu bæjarfulltrúar þorðu að vona. Ef eingöngu er litið til A-hlutans þá er reksturinn jákvæður um rúmlega 8 milljónir króna,“ segir Aldís.

Gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 706 milljónir á árinu 2021 en á móti fjárfestingu koma tekjur, meðal annars af gatnagerðargjöldum þannig að nettó fjárfesting mun nema um 400 milljónum króna. 

Viðbyggingu við grunnskólann mun ljúka á árinu, gert er ráð fyrir að uppbygging haldi áfram í Kambalandi og Bjarg íbúðafélag hyggur á byggingu tíu leiguíbúða. Þá verður unnið að endurbótum á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði og vonir standa til að framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili við Hverahlíð muni hefjast á næsta ári.

Fyrri greinSkimað á aðfangadagsmorgun
Næsta greinFerðalangar festu sig við Hólaskjól