Gert ráð fyrir 99 milljóna króna afgangi

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2014 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag. Vera kann að áætlunin taki breytingum á milli umræðna, en seinni umræða er áætluð þann 11. desember næstkomandi.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð um 99 milljónir króna. Fjárfestingar ársins eru áætlaðar 926,7 milljónir króna. Helstu framkvæmdir eru þær að ráðist verður í gerð hreinsistöðvar í fráveitu, viðbyggingu við Sundhöll Selfoss, endurbætur á skólahúsnæði grunnskóla sveitarfélagsins, hitaveituframkvæmdir, gatnafrágang, gerð göngustíga og fleira.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts er lækkað þriðja árið í röð og fer úr 0,3% í 0,275% af fasteignamati íbúða, hvatagreiðslur til barna og ungmenna 5-17 ára hækka um 50% og niðurgreiðsla dagvistunargjalda hjá dagforeldrum eykst um 20%.

Nýjar lántökur eru áætlaðar 918,7 milljónir króna. Afborganir lána eru áætlaðar 733,1 milljónir króna. Áætlað er að skuldahlutfall samkvæmt viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga verði 143% í árslok 2014.

Fyrri greinMyndlistarmenn í gamla skólanum
Næsta greinSætur sigur að Hlíðarenda