Gert að bæta hryssu sem fékk raflost

Héraðsdómur Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Héraðsdómur Suðurlands hefur gert Rarik og TM að bæta eigendum hryssunnar Bryðju frá Hrauni það tjón sem varð þegar hryssan fékk raflost og drapst í apríl árið 2018.

Rafmagnsstaur í landi Laugarbakka í Ölfusi brotnaði með þeim afleiðingum að háspennulína sem staurinn hélt uppi, hékk í um það bil eins metra hæð. Hryssan fannst dauð við línuna og mátti greina brunasár í munnvikum hennar og munnholi. Dýralæknir mat það svo að hryssan hefði drepist skyndilega þegar hún þefaði af eða beit í línuna.

Eigendur hryssunnar kröfðust bóta úr ábyrgðartryggingu Rarik hjá TM en bótaskyldu var hafnað þar sem tjónið hafði ekki orðið með saknæmum eða ólögmætum hætti. Málinu var skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst að sömu niðurstöðu.

Dómarar við Héraðsdóm Suðurlands voru ekki á sama máli og bentu á að í raforkulögum sé að finna ítarleg ákvæði sem miða að því að tryggja heilsu og öryggi manna og dýra og að Rarik hafi borið ábyrgð á að öryggisreglum vegna línunnar væri framfylgt.

Rarik og TM bera því óskipt skaðabótaábyrgð á tjóninu. Í dómnum kemur fram að eigendur hryssunnar telji að verðmæti hennar hafi verið um 3-4 milljónir króna en hefði hæglega getað orðið 10-15 milljónir króna. Auk þess að bæta hryssuna er Rarik og TM gert að greiða eigendum hryssunnar tvær milljónir í málskostnað. 

Fyrri greinGlæsilegur urriði í Ytri-Rangá
Næsta greinGosmóða yfir Suðurlandi