Gert að fjarlægja áfengisauglýsingar

Lögreglan á Selfossi fór fram á það við eiganda 800Bars nú síðdegis að skreytingar utan á húsinu yrðu fjarlægðar þar sem um ólöglegar áfengisauglýsingar væri að ræða.

Um helgina er Corona (léttöl) helgi á 800Bar í samstarfi við Vífilfell með góðum tilboðum á barnum auk þess sem gestir geta átt von á fríum drykkjum. Af því tilefni hefur staðurinn verið skreyttur í hólf og gólf auk þess sem mannhæðarhá uppblásin flaska, borðar og veifur voru settar upp fyrir ofan inngang hússins.

“Lögreglan mætti á staðinn og gerði athugasemd við flöskuna þar sem á henni stendur 4,6%. Ég setti svart límband yfir þá merkingu og taldi að það myndi duga. Skömmu síðar kemur símtal frá lögreglu þar sem mér er gert að taka allar skreytingarnar niður þar sem þær brjóti í bága við áfengislög því engin “léttöls” merking sé á þeim,” sagði Eiður Birgisson, veitingamaður á 800Bar í samtali við sunnlenska.is.

Eiður segist ánægður með viðbrögð lögreglunnar en skreytingarnar hafi verið settar upp í hugsunarleysi. “Ég er gríðarlega ánægður með þessa góðu ábendingu lögreglunnar. Menn hefðu jafnvel getað farið sér að voða í kvöld útaf þessu en sem betur fer kom lögreglan í veg fyrir það og skreytingarnar hafa verið fjarlægðar,” sagði Eiður ennfremur.

Hljómsveitin Banarnir heldur uppi fjörinu á 800Bar í kvöld en á morgun er Eurovision partí með Guðjóni Óskari, Húrrí Gúrrí og DJ Kristmundi Axel.