„Gerðu eitthvað sem þér finnst gaman, þá ertu góður í því“

Frumkvöðullinn Lóa ásamt syni sínum, Kristjáni Þór, við heimili sitt á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sunnlendinginn Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur þarf vart að kynna. Þeir sem þekkja Lóu vita að hún er eldklár og harðdugleg enda komin af miklum frumkvöðlum.

Þessi fjögurra barna móðir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en hún opnaði Lindex á Íslandi ásamt unnusta sínum Alberti Þór Magnússyni í nóvember 2011. Síðan þá eru verslanir Lindex orðnar níu talsins á Íslandi, auk þess sem þau eru nú með Lindex umboðið fyrir Danmörku þar sem þau reka tvær verslanir, Færeyjar og Grænland. Nýverið bættist svo enn ein rósin í hnappagatið hjá þeim er þau opnuðu netverslun Gina Tricot á Íslandi.

Blaðamaður sunnlenska.is settist niður með Lóu í húsi fjölskyldunnar á Selfossi, hús sem stendur til að gera upp þannig að það rúmi vel alla sex fjölskyldumeðlimina ásamt fjölskylduhundinum Tinna. Aðalheimili fjölskyldunnar er í Garðabæ en sú staðsetning hentar vel þegar þarf að stýra stóru fyrirtæki. Ef ekki væri fyrir Hellisheiðina og duttlunga í færðinni þá myndi fjölskyldan una sér vel á Selfossi allan ársins hring.

Sólin skín bjart þennan síðasta sunnudag aprílmánaðar þegar blaðamann ber að garði og tekur Lóa glaðlega á móti honum ásamt yngsta syni sínum, hinum 18 mánaða gamla Kristjáni Þór.

„Viðtökurnar við Gina Tricot hafa verið ótrúlega góðar. Ég vissi alveg þegar ég bjó úti í Svíþjóð að þetta væri geggjað vörumerki. Þetta var ein af mínum uppáhalds búðum,“ segir Lóa þegar við erum búnar að koma okkur vel fyrir við eldhúsborðið.

„Ég hafði lengi haft augastað á Ginu og ég trúi svo innilega á alheimslögmálið og þegar var haft samband við okkur þá trúði ég því að þetta var bara eitthvað sem átti að gerast. Við opnuðum netverslun ginatricot.is svo 17. mars út frá vöruhúsinu okkar í Garðabæ og viðtökurnar voru bara ótrúlegar – framar björtustu vonum – og takturinn hefur verið frábær.“

Albert og Lóa ásamt börnunum sínum fjórum, sumarið 2022.

Stefna á að opna eiginlega verslun í haust
Lóa segir að það hafi verið greinilegt að margir þekktu vörumerkið, miklu fleiri en þegar þau opnuðu Lindex. „Þegar við opnuðum Lindex þá voru margir sem vissu ekkert hvað Lindex var en mér finnst einhvern veginn allir þekkja Gina og það er mikil ánægja með að þetta sé loksins komið til Íslands.“

Lóa vonast til að þau geti opnað Gina Tricot verslun á Íslandi á haustmánuðum en þau séu að leita að húsnæði, annað hvort í Smáralind eða í Kringlunni og víðar.

Þurfum þetta mannlega
Þrátt fyrir gott gengi netverslana síðastliðin ár telur Lóa að hefðbundin verslun sé eitthvað sem við munum alltaf hafa þörf fyrir. „Í covid þá hraðspólaði netverslun tíu ár fram í tímann. Það var alltaf þessi hugsun að netið væri framtíðin en þá sá ég líka að það verður líka að vera verslun, því að við höfum svo mikla þörf fyrir að hitta hvort annað, fara í búðir og máta – þetta mannlega.“

„Við finnum það líka núna þegar við erum að halda konukvöld og viðburði, það er þvílíkt mikill meðbyr með viðburðum – miklu meira en áður. Fólk er svo ánægt að hafa tækifæri til að klæða sig upp og fara út og hitta annað fólk.“

„Veit enginn Íslendingur af þessu?“
Upphafið að Lindex-ævintýrinu hófst á Selfossi fyrir fjórtán árum þegar Lóa var í fæðingarorlofi með son sinn, Magnús Val. „Ég tók eftir því hvað það var lítið úrval af barnafötum á Selfossi. Á sama tíma fór ég að hafa áhuga á lífrænni bómull og að spá hvaðan fötin kæmu og hvernig þau væru framleidd.“

Fjölskyldan flutti svo til Svíþjóðar í fæðingarorlofinu, þar sem Albert kenndi markaðsfræði og stefnumótun við háskólann í Halmstad. „Mér fannst alveg frábært úrval af barnafatnaði þar, svo ég naut þess alveg í botn. Ég var búin að labba framhjá Lindex-verslun í marga mánuði – ég fór bara í HM eins og allir Íslendingar.“

„Ég labba svo inn í Lindex-verslun eftir að vinkona mín mælti með því við mig, því að ég var búin að tala um að mig langaði í lífræna bómull. Og það var bara eins og himnarnir opnuðust þegar ég kem inn í Lindex í fyrsta sinn og mín fyrsta hugsun var bara: „Veit enginn af þessu? Veit enginn Íslendingur af þessu?“ segir Lóa sem ljómar við upprifjunina.

Í Svíþjóð með Magnús á brjósti.

Tók myndir í baðkarinu
„Þarna, þegar ég var stödd í Lindex í fyrsta sinn og þá kom frumkvöðullinn upp í mér og ég sá þvílíkt tækifæri í þessu: „Ég verð að koma þessu á framfæri“ og ég fór að selja í gegnum Facebook-síðu. Ég sagði við Albert einn sunnudagsmorguninn við uppvaskið að mig langaði svo að stofna fyrirtæki og fara að selja barnaföt í gegnum Facebook og ég gæti byrjað með 5.000 sænskar krónur til að koma mér af stað. Hann hvatti mig til að byrja, svo ég fór og keypti einhvern smá lager fyrir þetta og setti upp síðu og tók myndir í baðkarinu til að fá hvítan bakgrunn,“ segir Lóa og hlær.

„Ég bjó til Facebook síðuna Emil og Línu og bað alla að deila. Þetta fór strax mjög vel af stað – ég var komin með þrjú, fjögur þúsund manns á þessa síðu. Þetta byrjaði bara svona og ég lagði smá á vöruna og svo pakkaði ég mörgum litlum pöntununum í stóran kassa til að ná fram hagkvæmninni og sendi til mömmu. Hún dreifði svo pöntununum fyrir mig.“

Lóa við eldhúsborðið með Magnús í fanginu.

Keyrðu hringinn og seldu föt
Lóa segir að það hafi fljótt orðið brjálað að gera hjá litla fyrirtækinu hennar. „Albert á myndir af mér við eldhúsborðið þar sem ég er með Magnús Val á brjósti á meðan ég vann í risa excel-skjalinu sem hélt utan um pantanirnar. Vörurnar voru svo í einum skáp í húsinu okkar og eldhúsborðið okkar var bara alltaf pakkað af pokum og dóti,“ segir Lóa og hlær.

Yfir sumartímann fór fjölskyldan svo til Íslands og við vildum alls ekki láta fyrirtækið deyja út á meðan. „Ég bókaði því bara kynningar á Íslandi og það var mikil eftirspurn eftir því. Það var búið að bóka eitthvað um hundrað heimakynningar þegar við komum. Ég var með fullt af fötum sem ég tók með mér sem lager en svo náttúrulega dugði það ekki neitt þannig að ég var með vinkonu mína úti sem keypti fyrir mig og sendi mér heim. Svo keyrði Albert okkur bara um allt landið með strákana í bílnum, nokkrar IKEA slár og þrjár ferðatöskur. Já, við fórum bara hringinn og svo stoppuðum við og héldum heimakynningar með lagernum sem komst fyrir í skottinu.“

„Ég hugsa eftir á að þetta hefur örugglega verið stærsta fókus markaðsrannsókn sem var gerð á Íslandi. Konur buðu tíu, fimmtán öðrum konum og svo var ég með að selja barnafötin og ég sat bara með þeim og við spjölluðum um föt og íslenska markaðinn.“

Heimakynning hjá Emil og Línu sumarið 2010.

Verkstæði verður að barnafataverslun
Sumarið leið og þegar fjölskyldan fór aftur til Svíþjóðar voru fleiri farnir að selja barnaföt með sama hætti. „Við hugsuðum að við yrðum að gera eitthvað öðruvísi og höfðum samband við Lindex þar sem við lýstum yfir áhuga á að fá umboð fyrir Lindex á Íslandi. Albert bjó til geggjaða kynningu sem við sendum inn.“

Lóa fór heim til Íslands til að selja restina af lagernum en það endaði með því að hún opnaði verslun fyrir Emil og Línu. „Steinar frændi segir við mig að hann eigi verkstæði á Eyravegi 31 og ég megi fara þangað ef ég vil, vera með lagerinn þar – svona litla búð. Ég þáði boðið og fór og málaði gólfin og pabbi hjálpaði mér með skiltið. Ég var komin þangað inn fyrir fimmtíu þúsund kall og setti upp lagerinn. Ég bauð líka viðskiptavinum að koma með notuð föt sem ég keypti í kílóatali og seldi aftur. Ég blandaði því saman við nýja lagerinn sem Albert var svo alltaf að senda mér að utan. Svo stóð ég bara vaktina þarna með litla kútinn minn.“

Verslunin Emil og Lína við Eyraveg 31 á Selfossi.

Svar berst frá Lindex
Hálfu ári eftir að þau Albert sendu Lindex kynninguna fá þau svar frá Lindex. „Þá vorum við búin að vera við eldhúsborðið í Svíþjóð, í heimakynningunum, í skúrnum og svo á þessu verkstæði og þá fór allt í gang. Johan Isacson hjá Lindex bauð okkar að koma og hitta sig í Svíþjóð. Ég var nú eitthvað efins að við ættum að fara en mamma og Albert vildu ekki heyra á annað minnst en ég myndi drífa mig. Það myndaðist strax góður vinskapur með okkur og Johan.“

„Svo kom hann til Íslands og hitti okkur og fleiri aðila sem voru búnir að sækja um Lindex. Hann hefur svo sagt okkur seinna að hann hafi heillast af frumkvöðlakraftinum í okkur, sem Svíar náttúrulega elska. Við vorum bara með hjartað í þessu og þekktum markaðinn rosalega vel.“

„Are you ready for Lindex?“
Í janúar 2011, fengu þau endanlegt já frá Lindex – Lindex á Íslandi var þeirra. „Við vorum búin að vera í sambandi við Lindex í einhverja fjóra, fimm mánuði fram og til baka. Johan býður okkur aftur til Svíþjóðar og ég man alltaf að hann sagði: „Are you ready for Lindex?“ Og þá var hann með samninginn sem við skrifuðum undir.“

„Við fórum svo við að tala við forsvarsmenn Smáralindar og Kringlunnar. Við heyrðum auðvitað mikið af efasemdarröddum og þurftum alveg að sanna okkur. Þetta var ekki löngu eftir bankahrunið og margir af okkar vinum og fjölskyldu höfðu áhyggjur af þessu fyrir okkar hönd. Við tókum mikla áhættu. Við lentum í hruninu eins og aðrir en við höfðum bara rosa mikla trú á þetta myndi ganga vel og það var það sem dreif okkur áfram.“

Lóa og Albert við afhendingu verslunarrýmisins í Smáralind 2011.

„Við fengum svo þetta pláss þar sem Intersport var í Smáralind og það var bara öllu til tjaldað til þess að breyta því í Lindex-búð; börnin okkar, pabbi, mamma, tengdapabbi og allir voru með að hjálpa. Svo þegar allt var tilbúið þá fórum við að hafa smá áhyggjur af því að nú kæmi kannski enginn að versla við okkur.“

Búðin tæmdist á nokkrum dögum
Áhyggjur Lóu og Alberts voru með öllu óþarfar en eins og flestum er eflaust enn í fersku minni þá voru raðir fyrir utan Lindex-verslunina í Smáralind dögum saman. „Það voru bara raðir dag eftir dag og svo endaði það með því að Johan, hjá Lindex, segir við okkur á mánudegi: „Við verðum að loka. Þetta er ekki lengur Lindex búð“ Við vorum bara alls ekki sammála, við vildum halda opnu því við vorum sannfærð um að það myndi fara að róast.“

„Svo opnum við þarna á þriðjudegi og það voru aftur biðraðir, allan daginn og og það endaði með því í lok dags að við urðum að játa að búðin var það tóm og við yrðum að loka.“

Verslunin fylltist á augabragði.

„Ég er að safna fyrir Ísland“
Með tóma búð þýðir lítið að hafa opið og Johan fór til Svíþjóðar til að redda vörum fyrir Lindex-verslunina á Íslandi. „Hann fer beint á bílaleigu þegar hann kemur út, leigði stærsta flutningabíl sem hann mátti keyra og ók svo bara um alla Svíþjóð, inn í aðrar Lindex-verslanir og sagði bara: „Hvað getið þið látið mig fá af vörum? Ég er að safna fyrir Ísland.“ Svo fimm dögum seinna á afmælisdaginn minn, 19. nóvember, þá opnuðum við aftur. Og það var sama – raðir í marga daga.“

Réðu starfsfólk á kassanum
Lóa segir að þau hafi ekki verið með mikið starfsfólk þegar þau opnuðu. „Ég ætlaði að sjá um verslunina með mömmu og samfélagsmiðlana og Albert ætlaði að sjá um lagerinn með tengdapabba og skrifstofuna. Við vorum með einn starfsmann og fjórar stelpur sem voru að vinna í hlutastarfi með okkur. Þannig að við vorum bara að ráða fólk á kassanum ef fólk spurði um vinnu. Það er ein hjá okkur enn í dag, sem er ein af okkar lykilmanneskjum – hún var ráðin þannig, þá bara 17 ára. Hún spurði: „Vantar ykkur starfsfólk?“ og við réðum hana á staðnum.“

Stórfjölskyldan hljóp öll undir bagga. „Einar frændi sem er smiður var kominn inn í mátun að afgreiða. Daníel sonur okkar kom á kassann og það voru bara allir að hjálpa til.“

Daníel á lagernum.

11.11 – Gildishlaðin dagsetning
Lindex opnaði 11. nóvember með kvöldopnun en aðalopnunin var 12. nóvember. „Systir mín var á fæðingardeildinni akkúrat þegar við vorum að opna. Þannig að ég á einn lítinn frænda sem á sama afmælisdag og Lindex.“

„Þetta er mjög fyndið því að ég er mjög mikið ættfræðinörd. Ég komst að því fyrir nokkru að Linnet föðurættin mín er kaupmannsætt úr Hafnarfirði, komin frá Danmörku. Afi minn, Hans Ditlev Linnet, var kaupmaður í Hafnarfirði en árið 1911, akkúrat 100 árum upp á dag, að þá brann Linnet verslun í Hafnarfirði. Þegar verslun afa brennur voru tryggingarbæturnar 5.000 krónur á þessum tíma – sem er sama upphæð og ég byrjaði með. Svo opna ég verslun á sömu slóðum 100 árum seinna upp á dag fyrir algjöra tilviljun.“

En þetta er ekki eina tengingin við 11.11. „Ég fann um daginn gamla auglýsingu úr Dagskránni frá því ég opnaði Emil og Línu verslunina og sá þá að það var líka 11. nóvember,“ segir Lóa og bætir því við að hún hafi upplifað mörg svona gæsahúðarmóment í öllu Lindex-ferlinu.

Kristján Þór á lagernum með mömmu.

Föt sem ganga barn af barni
Lóa segir að henni hafi alltaf þótt gott að vinna með Lindex, því að hún veit að varan stendur fyrir sínu. „Það er svo mikið virði í vörunni. Hún er á hagkvæmu verði en hún er líka vönduð. Allt sem Lindex stendur fyrir finnst mér ég geta svo vel tengt við. Ég kann að meta hversu mikla áherslu Lindex leggur á sjálfbærni.“

„Í Svíþjóð er Lindex með second hand búð, með notuðum Lindex barnafötum. Það er svo gott að geta sýnt að þetta geti gengið barn af barni. Ég finn þetta sjálf, með mín börn að þetta er bara eins og nýtt eftir notkun.“

Aldrei leiðinlegt þó að það sé mánudagur
Aðspurð hvort eitthvað hafi komið Lóu á óvart í öllu þessu ferli segir hún að það sem kom henni mest á óvart sé að þó þetta sé mikil vinna fái hún aldrei leið.

„Ég er alltaf með hugann í vinnunni, alltaf, en tel það aldrei ekki eftir mér vegna þess að mér finnst þetta rosalega skemmtilegt. Ég trúi því að maður eigi að vinna við það sem maður gleymir sér í. Vinnan er áhugamálið mitt. Ég er bara að gera það sem mér finnst skemmtilegt alla daga.“

„Mér finnst gott að sýna börnunum minum að mér finnst aldrei leiðinlegt að fara í vinnunna, mér finnst aldrei leiðinlegt þó að það sé mánudagur eða að ég sé að vinna á laugardegi. Ég tek þau bara með mér, þau fá að vera partur af þessu. Það er ótrúlega mikilvægt. Þau sjá að þetta er engin kvöð. Gerðu eitthvað sem þér finnst gaman, þá ertu góður í því.“

„Mamma er mín fyrirmynd og pabbi, amma og afi. Þau eru öll frumkvöðlar. Allt fólk sem hefur unnið mikið en haft ástríðu fyrir því sem það vinnur og vann við.“

Anna Sóley spjallar við ömmu sína, Önnu Árnadóttur, í vinnunni.

Sterkt teymi inniheldur ekki bara já-fólk
Það er margt sem Lóa hefur lært á þessum fjórtán árum síðan hún stofnaði fyrirtæki. Eitt er að læra að vinna með ólíku fólki. „Ég hélt einhvern veginn þegar ég var að byrja að ég þyrfti að safna fólki í kringum mig sem væri eins og ég, til að skilja mig, en það hefur verið alveg öfugt. Þetta verður að vera góð blanda. Nú reyni ég að fá þá sem eru ólíkir mér og vega upp mína veikleika svo ég geti leyft mínum styrkleikum að blómstra.“

„Maðurinn minn er rosa gott dæmi um það. Við erum svo ólík. En eftir að við fórum að vinna saman þá höfum við lært enn betur að meta hvort annað. Ég sé hvað hans styrkleikar skipta miklu máli í því sem við erum að gera og ég veit sömuleiðis að hann kann að meta það þegar ég sé hlutina á annan hátt en hann.“

Lóa og Albert fyrir utan eina af verslunum Lindex.

Vakin og sofin yfir Lindex
Þrátt fyrir mikla velgengni Lindex þá slá þau aldrei slöku við. „Ef þú vilt ná árangri þá tekurðu stigann en ekki lyftuna. Það eru margir sem horfa á aðra ná árangri og hugsa: „Ég ætla að gera þetta – taka svona snúning, það verður ekkert mál. En það er ekkert svoleiðis. Þetta er bara vinna, vinna og vinna.“

„Þú ert vakin og sofin yfir þessu, alveg sama þó þú sért ólétt eða veik eða einhver veikur í fjölskyldunni, einhverjir erfiðleikar, heimsfaraldur eða hvað sem er – þú verður bara að halda áfram.“

Konukvöldin eins og ættarmót
Lóa segir að hún sé ótrúlega ánægð með að hafa getað opnað stóra búð á Selfossi. „Nóg var nú beðið! Fólk var alveg: „Jæja, þið eruð búin að opna á Akranesi og Egilstöðum en þú ert ekki búin að opna á Selfossi!“ segir Lóa og hlær.

„Þetta var ákveðinn myllusteinn í öllu þessu ferli að opna verslunina á Selfossi. Þetta byrjaði náttúrulega hérna á Selfossi. Það var ótrúlega gaman að geta opnað svona flotta búð í heimabænum. Þegar við höfum verið með konukvöld þá er þetta eins og ættarmót.“

Konukvöld í Lindex á Selfossi.

Þakklát fyrir frábærar viðtökur
„Stelpurnar sem eru hérna hjá okkur er búnar að vera nánast frá upphafi. Karen, verslunarstjórinn á Selfossi, er búin að vera hjá okkur síðan hún var unglingur og sama með Láru, útstillingarstjórann okkar.“

„Mér þykir svo ótrúlega vænt um allt þetta fólk, flest af okkar lykilfólki er búið að vera hjá okkur yfir í tíu ár og er bara partur af fjölskyldunni – það er bara með hjartað í þessu með okkur. Það er ótrúlega gaman að vera með svona hæfileikaríkt fólk í kringum sig. Án þeirra gætum við ekki verið að gera þessa hluti – taka inn Ginu Tricot og opna fleiri Lindex verslanir út um allar trissur.“

„Ég vil bara koma fram þökkum til Sunnlendinga allra. Mér finnst frábært að geta þjónustað Sunnlendinga og viðtökurnar hafa verið æðislegar,“ segir Lóa að lokum.

Lóa með æskuvinkonum sínum við opnun verslunarinnar á Selfossi þann 29. júlí 2021.
Fyrri greinMjótt á mununum í tilnefningum til vígslubiskups
Næsta greinÓvissustig í gildi en opnað inn að jökli