Gera úttekt á samstarfi sveitarfélaganna

Samráðsnefnd Ásahrepps og Rangárþings Ytra, sem skipa sveitarstjórnir þeirra beggja, samþykkti á fundi sínum í gær að endurskoða samstarfssamninga sveitarfélaganna.

Rétt sé að meta hvernig til hafi tekist og hvað megi fara betur með það að markmiði að skýra samstarfið og gera það árangursríkara.

Samþykkt var á fundinum að hvort sveitarfélag skipi þrjá einstaklinga í viðræðunefnd sem fari yfir alla fleti samstarfsins og skili niðurstöðu fyrir 1. mars á næsta ári. Markmiðið með endurskoðuninni er að efla og auka samstafið báðum sveitarfélögunum til hagsbóta, segir í samþykktinni sem er að finna í heild sinni í fundargerð hér á síðunni.

Sveitarfélögin eiga mikið samstarf á mörgum sviðum. Til að mynda um Menningarmiðstöðina, leik- og grunnskóla, öldrunarmál og gámasvæði, auk Vatnsveitunnar og snjómoksturs. Mikið er til þess vinnandi að samstarfið gangi vel og skili sem mestum árangri. Mögulega gæti komið til enn frekara samstarfs, svo sem um fjarskiptamál í tengslum við ljósleiðaralögn Ásahrepps.

Frá þessu er greint á heimasíðu Ásahrepps