Gera upplýsingar um lífrænan landbúnað aðgengilegri

Vefurinn Náttúran.is, sem gerður er út frá Breiðahvammi í Ölfusi, hefur nú þróað og hannað Lífrænt Íslandskort í prentútgáfu en kortið var kynnt á viðburði Samtaka lífrænna neytenda í Norræna húsinu í gær.

Kortinu verður dreift ókeypis á völdum stöðum en einnig er hægt að óska eftir að fá kortið sent heim, gegn greiðslu sendingarkostnaðar.

„Ástæðan fyrir útgáfu Lífræns Íslandskorts nú er einfaldlega sú að nauðsynlegt er orðið að gera upplýsingar um lífrænan landbúnað og framboð á lífrænum vörum aðgengilegri fyrir alla,“ segir Guðrún A. Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Náttúrunnar.

„Upplýsingar um lífræna aðila hafa verið framreiddar á ýmsa vegu á vef Náttúrunnar síðastliðin fimm ár og upplýsingarnar hafa verið uppfærðar reglulega á grundvelli upplýsinga frá Vottunarstofunni Túni. Ný könnun Náttúrunnar meðal vottaðra aðila hefur varpað ljósi á raunverulegt framboð á lífrænum íslenskum vörum og eru þær upplýsingar settar fram á kortinu,“ segir Guðrún ennfremur og bætir við að það sé ósk útgefanda að kortið verði til þess að hvetja hið lífræna Ísland til dáða og djörfungar á komandi árum.

Lífræna kortið endurspeglar stöðuna eins og hún er nú haustið 2012. Gögnin er einnig hægt að skoða á Grænu Íslandskorti og Lífræna kortinu á vef Náttúrunnar.

Lífræna Íslandskortið er hannað af Guðrúnu og Signýju Kolbeinsdóttur.

Fyrri greinÞór byrjar á sigri
Næsta greinKom heim með hálft hundrað verka