Gengur ekki að háannatíminn fari fyrir ofan garð

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, segir algjörlega óásættanlegt að það taki 2-3 vikur að koma hringveginum í lag.

„Eftir árleg gos horfðu margir á að ferðaþjónustan myndi blómstra í sumar. En hlaupið í Múlakvísl og hvarf brúarinnar setja veruleg strik í reikninginn. Ríkisstjórn og Vegagerð virðast hafa brugðist fljótt við og margt er komið í gang og er það þakkarvert. Hins vegar gengur ekki að af þeim sex vikum sem háannatími ferðaþjónustunnar varir séu jafnvel þrjár vikur sem fari meira eða minna fyrir ofan garð,“ segir Sigurður Ingi í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í kvöld.

„Ég tel að skoða verði vel að flýta gerð bráðabirgðabrúar á Múlakvísl sem allra allra mest. Í því sambandi er vert að minnast á að í Skeiðarárhlaupinu 1996 var búið að tengja hringveginn eftir 5-6 daga. Kanna þarf samhliða kosti þess að gera vað og ferja bíla yfir. Þá þarf að setja þarf fjármuni og tæki í að laga og halda Fjallabaki nyrðra í sem bestu ásigkomulagi – nú þegar er ljóst að leiðin þolir ekki þann aukna umferðarþunga sem komin er. Einnig þarf að tryggja öryggi íbúa varðandi sjúkraflutninga og gefa út yfirlýsingu þess efnis,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að eðlilegast væri að kalla saman samgöngunefnd þingsins til að fara yfir þá kosti sem í stöðunni eru og hvað flýtileiðir séu færar.

Fyrri greinÁfram unnið á óvissustigi
Næsta greinStarfsmenn kallaðir úr sumarfríi