Gengu á nýrunnu hrauni

Talsverður fjöldi ferðalanga lagði leið sína að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi í gær.

Nokkuð var um að menn virtu ekki kílómeters bannradíus í kringum gosstöðvarnar og gengju jafnvel yfir nýrunnið hraunið.

Gos í gossprungunni þar sem gosið hófst hefur dottið niður, en það getur auðveldlega hafist þar á ný og ber fólki að sýna varúð þegar náttúruöflin eru annars vegar.

Skot kom í Hvanná í gærkvöldi og jókst bæði hiti og vatnsmagn í ánni. Sama má segja um Krossá. Miklar gufusprengingar voru í Hvannárgili þar sem vatn rennur niður drögin frá gosstöðvunum.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að nokkuð sé ennþá um að ferðalangar ofmeti eigin getu og farartækja sinna og þurfi að leita ásjár björgunarsveita og lögreglu. Almannavarnir ítreka að þeir sem hyggjast fara að gosstöðvunum virði lokanir, fari um svæðið með gát og búi sig í samræmi við veðurspá og aðstæður á svæðinu.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í dag segir að á svæðinu verði suðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og dálítil snjókoma framan af morgni, en síðan stöku él.

Fyrri greinVelkomin á sunnlenska.is
Næsta greinSandvíkurtjaldurinn lentur