Gengið á Þríhyrning og Heklu

Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur á Grenjaðarstað sem ætlar að ganga á þrjátíu fjöll eða tinda í ágúst til að vekja athygli á Landpítalasöfnun Þjóðkirkjunnar, hyggst ganga á sunnlensk fjöll á næstu dögum.

Á morgun, mánudaginn 5. ágúst, leggur séra Þorgrímur á Þríhyrning og daginn eftir hyggst hann ganga á Heklu. Gangan á Þríhyrning hefst kl. 13 en ætlunin er að aka upp hjá Tumastöðum og hefja göngu ekki langt frá Fiská. Á þriðjudag verður lagt upp frá Eystra-Geldingaholti kl. 8 og stefnt á Heklu.

Áhugasömum er velkomið að slást með í för á eigin ábyrgð að sjálfsögðu.

Á miðvikudag er ætlunin að ganga á Heimaklett kl. 12:00 og síðan á Eldfell og Helgafell.

Sem kunnugt er hefur Þjóðkirkjan hrundið af stað söfnun til kaupa á geislatæki, svonefndum línuhraðli, sem notaður er við krabbameinslækningar. Séra Þorgrímur segir mikið þjóðþrifamál að endurnýja þau tæki sem nú eru í notkun, en þau eru komin til ára sinna og bila oft. Með fjallgöngum sínum vill hann hvetja fólk til að leggja þessu þarfa máli lið.

Reikningur söfnunarinnar er: 0301-26-050082, kt. 460169-6909

Nánar má sjá um átakið á facebook-síðunni 30 tindar í ágúst en þar eru m.a. birtar gönguáætlanir næstu daga.

Fyrri greinBanaslys við Hrífunes
Næsta greinBrjálað að gera í Landeyjahöfn