Gekkst við rallakstri utan vega

Ungur ökumaður var kærður fyrir utanvegaakstur í Skaftárhreppi í gær eftir að tilkynning barst til lögreglu á Kirkjubæjarklaustri að mannlaus bifreið væri út í miðri Geirlandsá við Prestbakka.

Lögregla hóf eftirgrennslan og fannst umráðamaður bifreiðarinnar fljótlega. Hann viðurkenndi að hafa verið að aka um aura á svæðinu í eins konar rallakstri.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að í liðinni viku spólaði ökumaður pallbíls í hringi á malarplani á Flúðum með þeim afleiðingum að steinar lentu á annari bifreið. Lakkið á henni skemmdist.