Gekk berserksgang á gröfu og reyndi að flýja undan laganna vörðum

Kl. 18:24 í dag var lögregla kölluð á vettvang í Biskupstungum þar sem ölvaður maður gekk berserksgang með tveggja tonna gröfu við heimili sitt.

Á leið sinni á vettvang mættu lögreglumenn manninum á bíl og voru honum gefin stöðvunarmerki en þeim sinnti hann ekki heldur ók á undan lögreglu áleiðis eftir Skálholtsvegi og upp í Þjórsárdal.

Á Skálholtsvegi var reynt að komast fram fyrir bifreið mannsins en hann þvingaði þá lögreglubifreiðina út fyrir veg.

Í ljósi ástands mannsins, aksturslags og þeirrar almennu umferðar sem þarna á leið um var ákveðið að beita lögreglubifreið til að stöðva akstur mannsins. Það var gert á Þjórsárdalsvegi og valt bifreið mannsins við áreksturinn.

Maðurinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslu á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var með meðvitund en nánari upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir. Þau eru þó ekki talin alvarleg. Lögreglumenn á vettvangi eru ómeiddir.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fengin til að aðstoða við rannsókn vettvangs.

Fyrri grein„Vorum alveg gríðarlega klaufalegir“
Næsta greinEgill sigraði í úrslitaglímunni á 11 sekúndum